Fórnarlömb ofsaflóða í sunnanverðri Afríku telja hundruð þúsunda. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna nótt sem nýtan dag við það að bjarga lífum og hafast fjölskyldur, sem misst hafa allt sitt, nú við í fjöldahjálparstöðvum.

Löndin sem hafa orðið fyrir barðinu á ofsaflóðunum eru með þeim fátækustu í heimi. Íbúar á flóðasvæðinu lifa margir hverjir á sjálfsþurftarbúskapi. Á þessum slóðum þekkir fólk þessar hörmulegar afleiðingar loftslagsbreytinga því miður vel og ljóst er að lífsviðurværi margra er tapað. Umfang flóðanna nú er óvenjumikið og eru meira en 228 þúsund hektara lands undir vatni.

Á þessum tímapunkti er þörfin mest fyrir húsaskjól, mat, öruggt drykkjarvatn og aðgengi að hreinlætis- og salernisaðstöðu, þ.m.t. aðstöðu fyrir stúlkur og konur svo þær geti á öruggan hátt sinnt blæðingum sínum.

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfsmánans hefur þegar sent útkall til allra landsfélaga þar sem óskað er eftir aðstoð. Ljóst er að neyðin er gríðarleg á þessu svæði þar sem fólk er berskjaldað og innviðir oft veikir.

Rauði krossinn á Íslandi hefur í gegnum árin starfrækt verkefni á þessum svæðum, t.d. með uppbyggingu á heilsugæslu, öruggur aðgengi að drykkjarvatni og aðgengi að hreinlætis- og salernisaðstöðu. Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar sent einn sendifulltrúa á svæðið vegna flóðanna og er í viðbragsstöðu að senda fleiri.

Your browser is out-of-date!

Update your browser to view this website correctly. Update my browser now

Close