Rauði krossinn heldur úti félagsstarfi og stuðningi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í þeirri bið og óvissu sem fylgir umsóknarferli um alþjóðlega vernd er afar mikilvægt fyrir einstaklinga að hafa aðgang að fjölbreyttum félagslegum úrræðum, hafa nóg fyrir stafni og vera virkir. Umsækjendum eru boðið upp á vettvang til að hittast og eiga samskipti sín á milli, en einnig mikilvæga tengingu við íslenskt samfélag og menningu.
Vel skipulagt félagsstarf sem hefur þann tilgang að gera dvöl og daglegt líf fólks bærilegra stuðlar þannig ekki aðeins að bættri líðan og aukinni velferð þeirra sem félagsstarfið sækja með því að vega á móti hættunni á þunglyndi og öðrum neikvæðum fylgifiskum umsóknarferlisins, heldur dregur það jafnframt úr álagi á bæði talsmenn Rauða krossins og þær opinberu stofnanir sem sinna málaflokknum. Litið er svo á að einstaklingar verði betur í stakk búnir til að takast á við það sem tekur við að umsóknarferlinu loknu, hvort sem viðkomandi fær dvalarleyfi eða ekki.

Stuðningurinn sem Rauði krossinn veitir er tvíþættur; bæði heimsóknir til umsækjenda þar sem þeir búa og félagsstarf. Í félagsstarfinu er meðal annars tungumálakennsla og hjólaverkefni, farið í stuttar ferðir, íþróttir stundaðar, gönguferðir í og við höfuðborgarsvæðið, safnaferðir og ýmis námskeið auk reglulegs félagsstarfs á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

Your browser is out-of-date!

Update your browser to view this website correctly. Update my browser now

Close